Heimshornablogg!

Hvað sem þú gerir - ekki gera EKKI neitt!

mánudagur, október 17, 2005

Blogg flutt!

Ég er um það bil að ljúka við að setja upp nýja síðu á www.markupolus.com í tilefni af ferðalagi mínu til Ameríku.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Sigling til Færeyja

Að morgni föstudagins 22. júlí kl. 10:00 var lagt af stað frá Grindavík til Færeyja. Í áhöfn eru fimm manns. Veður er eindæma gott í landi en spáð breytilegri hægri átt næstu tvo daga, en síðan norðlægum áttum á suðausturmiðum næstu tvo dagana á eftir. Við megum því eiga von á að þurfa að sigla eitthvað á mótór til að byrja með, en eigum birgðir fyrir ca. hálfri siglingunni til Færeyja. Við fáum þó ágætis vind utan Grindavíkur og tökum upp segl. Vindur er suðaustlægur svo að það stefnir í heilmikið kruss og hraðinn er innan við 5 sjómílur á klukkustund (hnútar). Við ákveðum því að setja mótórinn í gang og tökum stefnu á Faxasker rétt norðan Vestmannaeyja. Fljótlega siglum við inn í svartaþoku og vindurinn dettur niður í nánast ekki neitt. Um klukkan 22:00 um kvöldið erum við enn í svartaþoku og tökum þá ákvörðun fyrir öryggissakir að fara inn til til Eyja og bæta á olíuna. Við komum að höfninni rétt fyrir kl. 23:00 og siglingin til Vestmannaeyja tekur því 13 klukkustundir.

Er við siglum að höfninni komumst við að því að gírinn okkar er pikkfastur og kemst ekki í hlutlausan gír, hvað þá í bakkgír. Við rennum því rólega upp að dekkjakanti á hafnagarðinum. Í Vestmannaeyjum fáum við alla þá hjálp sem við þurfum og meiri en við þorðum að vona. Kíkt er á gírinn strax sama kvöld og um morguninn er kallaður út viðgerðamaður. Ekki er útlitið gott, en að lokum er niðurstaðan sú að hægt sé að keyra gírinn í áframgír án þess að hann skemmi meira út frá sér. Veðurútlitið hefur ekki breyst og breytilegar hægar áttir sjást aðeins í kortunum. Seinni part dags er vindur orðinn þó nokkur við flugturninn í Eyjum, þangað sem við förum að skoða veðurkortin.

Klukkan 18:00 á laugardeginum halda fjórir áhafnarmeðlimir ferðinni áfram til Færeyja, ásamt mér þeir Erlingur, Eysteinn og Haraldur Örn. Haldið er í áttina til Dyrhóleyjar. Vindur er enn suðaustlægur en góður og verðum við að krussa, en hraðinn er ágætur, rúmar 6 sjómílur. Eftir kvöldverð að hátíðarbrag kokkaðan af Ella, tökum við Haraldur við næturvaktinni. Um þrjúleytið um nóttina erum við að nálgast vitann við Dyrhóley, en vindur er orðinn bæði lítill og óreglulegur þannig að við fellum segl og setjum á mótór og siglum í morgunskímunni á rennisléttum sjónum framhjá Dyrhóley og Reynisdröngum. Klukkan 5:00 um morguninn taka Erlingur og Eysteinn við vaktinni. Upp úr klukkan 8:00 hreppa þeir góðan hliðarvind, suðlægan, rétt aftan við þvert og belgurinn er dreginn upp. Í sextán tíma er belgurinn uppi og hraðinn þetta 7-8 hnútar og siglingin gengur dúndurvel. Um kvöldmatartímann er ég orðinn nokkuð svangur, festi belgskautin og freistast til að fara niður í mat með félögunum. Á meðan nær skútan sjálf mestum hraða sem náðist í ferðinni eða 8,12 sjómílum!

Ferðin áfram næsta dag og næstu nótt gengur annars bara ljómandi vel, við getum siglt bæði á stórsegli og genúu að mestu. Sjólag er almennt gott, mesta ölduhæð 2-3 metrar og vindur um borð almennt þetta 17-23 hnútar. Við höfðum gert samkomulag um að við myndum rífa niður segl og nota mótor ef hraði færi niður fyrir 3 hnúta, enda gerði ferðaáætlunin fyrir 5 hnúta meðalhraða, en annars þurfum við lítið á mótórnum að halda á þessum tíma. Þriðju nóttina (frá Vestmannaeyjum) lendum við í 28 hnúta vindi og því er siglt á genúu um tíma.

Upp úr hádegi á fjórða degi sjáum við til lands í Færeyjum og fyrsta myndin er tekin af Mykinesi rétt fyrir klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Við erum að sjá fyrstu Færeyingana þarna, skipstjóri á veiðibát vinkar vinalega til okkar og býður okkur velkomna. Við siglum suður með Vogey og tökum stefnuna suður fyrir Koltinn og á sundið milli Hesteyjar og Sandeyjar. Skömmu áður en við komum að þessum eyjum fellur allt í dúnalogn og við sem vorum rétt nýbúnir að hífa upp belginn verðum að draga hann niður hundslappan. Þá er sett á mótór um stund, en síðan fáum við vind aftur og tökum aftur upp stórsegl og genúu. Þegar við komum að sundinu, lítur sjórinn út eins og væri að sjóða í honum og hraðinn samkvæmt GPS dettur niður í 1-2 hnúta. Þá er sett á mótór með seglum og reynt að sigla í vari við Hestey og eykst hraðinn eitthvað við það. Þó finnst okkur þetta ganga hægt, enda orðnir óþreyjufullir að sjá til Þórshafnar. En um leið og við komum fyrir austurenda Hesteyjar gengur allt betur fyrir sig. Þrátt fyrir sæmilegan vind siglum við á mótor alla leið inn til Þórshafnar, því við viljum ekki tefja för okkar með beitingu inn til Þórshafnar í sundinu milli Straumeyjar og Kolseyjar.

Við renndum hljóðlega að bryggjukanti utarlega á höfninni í Þórshöfn og stigum alsælir í land eftur þetta afrek okkar.

Við vorum komnir til Þórshafnar klukkan 23:00 að staðartíma og höfðum þá verið 76 tíma á leiðinni frá Vestmannaeyjum eða 89 tíma alls frá Grindavík. Meðalhraðinn var því um 5,6 hnútar. Við hefðum því verið um 100 tíma frá Reykjavík.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Reykjavík - Keflavík - Grindavík

Fyrsti og annar leggur siglingarinnar til Færeyja var sigldur nú um helgina. Á föstudaginn var siglt frá Reykjavík til Keflavíkur sem hluti af keppninni um Knarrarbikarinn.

Keppnin var ræst kl. 16:05 og áttum við að sigla fyrir Akureyjarbauju og Sexbauju og síðan inn rakleiðis inn í Grófina í Keflavík. Ákváðum að sleppa því að nota belgseglið að Akureyjarbauju þar sem við vorum undirmannaðir (bara tveir, allir að vesenast í fríi), síðan var siglt nánast á einum beitilegg alla leið inn í Grófina. Ekki þekki ég úrslitin, en tel líklegt að við höfum verið í næstneðsta sæti, a.m.k. fannst mér að Arían hefði átt að vera mikið lengra á undan okkur miðað við forgjöf.

Á þriðudagsmorgun sigldum við svo til Grindavíkur. Vindur var suðaustlægur og vorum við á belg að Gerðum og rákumst á nokkrar hnýsur þar, svo á beitingu fyrir vestan og sunnan nesið í 16-20 hnúta vind um borð. Veður var þurrt þar til við komum fyrir Garðskagavita, en þá tóku við skúrir sem slotaði ekki fyrr en við komum í Grindavík. Vorum við þá orðnir nokkuð blautir. Annars var þetta fín sigling og ágætis æfing í úthaldi fyrir áframhaldandi ferð til Færeyja.

mánudagur, júlí 11, 2005

Hjólað Fimmvöruháls

Nú held ég að maður sé endanlega orðinn bilaður! Starfsmannaferð hjá Origo, ganga yfir Fimmvörðuháls og gist í Básum.

Okkur Ella fannst það ekki nóg, svo við ákváðum að skella okkur yfir Fimmvörðuhálsinn hjólandi! Eftir smá rannsóknir (skólafélagi minn fór þetta á gúmmíinu fyrir tveimur árum) var stormað í GÁP og keypt varadekk, slanga, bremsuklossar og keðjulás.

Það var lagt í hann kl. 10:30 á laugardagsmorguninn í ágætu veðri. Fyrst var hjólaður vegurinn upp að Baldvinsskála (kallaður Fúkki sem skýrir sig sjálft fyrir þá sem hafa komið þangað). Elli mátti stinga mig af á þessum kafla (hann er búinn að vera að æfa stíft fyrir Birkebeiner hjólreiðakeppnina sem haldin er í Noregi upp úr miðjum ágúst) og var kominn í Fúkka um klukkustund á undan mér (að eigin sögn, hehe). Það eina sem ég sá eftir var að hafa ekki tekið með mér annan brúsa af vatni því ekki veitti af.

Næsti hluti eru fannirnar og þar gátum við hjólað eins langt og við komumst og reitt síðan hjólin. Þessi hluti var auðveldari en ég átti von á því minni snjór var heldur en áður (þetta er fjórða ferðin mín á Hálsinn) og þess vegna var brattinn upp í móti með betri spyrnu heldur en hefði verið í snjónum. Þá var hjólunum skellt á axlirnar.

Niður Bröttufönn skíðaði maður á strigaskónum með hjólið við hliðina á sér, ekkert mál. Þá komu keðjurnar við Heljarkamb, þar sem maður var svona við það að detta. Morinsheiðin gekk ágætlega, en þar er að vísu nokkuð stórgrýtt og stundum auðveldara að fara út af leiðinni heldur en að vera á henni.

Restina af leiðinni þ.e. brattann niður að Kattatungum og alla leið niður í Heiðmörk segja sumir mér að þeir hafi hjólað alla (Arnar, sneið til þín), en þá mega þeir heita góðir. Ég alla vega vildi komast lifandi frá þessu og láta skynsemina ráða, enda hefði ég sjálfsagt drepið mig 100 sinnum ef ég hefði reynt að leika það eftir.

Í það heila var þetta athyglisverður ferðamáti á fjöll og aldrei að vita hvar maður gerir þetta næst. Spurning um að fara að æfa sig í Esjunni!

Grillveisla okkar starfsmannanna, varðeldurinn og söngveislan í skálanum í Básum varð heldur ekki til að skemma fyrir þessari stórskemmtilegu ferð.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Snæfellsnes

Merkilegt nokk, ég hafði aldrei komið á sunnanvert Snæfellsnes! Alltaf gott að eiga eitthvað skemmtilegt inni. Skruppum á nesið á mánudaginn og gistum á Hótel Eddu á Hellisandi, sem er alveg fyrirmyndar hótel. Daginn eftir byrjuðum við á því að leika okkur í fjörunni á Skarðsvík og kíktum síðan á Önverðarnes. Varð að kíkja þangað eftir að hafa siglt rétt fyrir nesið fyrir tveimur árum. Á þessum slóðum er mikið af írskum minjum, brunnar og rústir af kirkju svo eitthvað sé nefnt og seinni tíma minjar um útróðra frá þessum stað.

Þessu næst var haldið á Djúpalónssand þar sem má sjá brak eftir enska togarann Epine sem fórst þarna 1948, eins og fleiri skip. Ekki gafst tími til að fara í Dritvík, en þangað er um klukkustundargangur. Meðan róið var til fiskar frá þeim stað sóttu menn vatn í Djúpalón. Mjög fallegt er á Djúpalónssandi, sem þó er að mestu sjóbarin möl, þar gátum við legið í sólbaði og fylgst með hjálparlausum marglyttunum berast að landi.
Þarna er líka að finna kraftasteinana sem notaður voru til að meta hvort menn væru bærir um að vera hásetar á veiðum frá Dritvík, amlóði (23 kg), hálfdrættingur (56 kg), hálfsterkur (100 kg) og fullsterkur (154 kg). Áttu menn að lyfta steinunum upp á klöpp í mjaðmahæð.

Á Hellnum er einstök náttúrufegurð. Neðan kaffistofunnar er falleg vík umvafin klöppum og þar við hliðina á nokkurs konar berghellir sem sjór nær inn í annars staðar frá. Í berghellinum sátu riturnar á hreiðrum sínum og virtust firra sig sig lítt yfir mannfólkinu sem kom til að kíkja. Þarna mátti sjá litla hnoðraða unga teygja sig eftir æti sem borið var að þeim.
Ofan af palli kaffistofunnar er fallegt útsýni. Ekki spillti náttúrunni að undurfögur dönsk snót klæddi sig úr hverri spjör í fjöruborðinu og skellti sér út í víkina. Ekki er hægt að lofa slíkum viðburði við heimsókn þangað en ég get hiklaust mælt með sjávarréttasúpunni!

Spölkorn fyrir ofan er lind sem Guðmundur Góði mun hafa vígt (að mig minnir árið 1260) og stendur þar líkneski af Maríu Mey frá 1989. Með því að lauga sig og signa úr lindarvatninu er sagt að menn muni losna við alla sjúkdóma.

Þá var ferðinni haldið til Arnarstapa, en þar er höfn. Eins gott að kynna sér aðstæður ef maður á eftir að lóna þarna í framtíðinni. Mikið fuglalíf er í klettunum þarna og ágætis útsýnispallur sem reistur hefur verið.

Á heimleiðinni stoppuðum við hjá Gerðubergi á Mýrum þar sem standa mjög fallegir stuðlabergsklettar í langri röð. Að sjálfsögðu var mynvélin ekki með í þessari stórkostlegu ferð, enda bara betra að mæta á svæðið til að upplifa þessa eindæma náttúrufegurð og nánd við dularfullan jökulinn.