Heimshornablogg!

Hvað sem þú gerir - ekki gera EKKI neitt!

mánudagur, júlí 11, 2005

Hjólað Fimmvöruháls

Nú held ég að maður sé endanlega orðinn bilaður! Starfsmannaferð hjá Origo, ganga yfir Fimmvörðuháls og gist í Básum.

Okkur Ella fannst það ekki nóg, svo við ákváðum að skella okkur yfir Fimmvörðuhálsinn hjólandi! Eftir smá rannsóknir (skólafélagi minn fór þetta á gúmmíinu fyrir tveimur árum) var stormað í GÁP og keypt varadekk, slanga, bremsuklossar og keðjulás.

Það var lagt í hann kl. 10:30 á laugardagsmorguninn í ágætu veðri. Fyrst var hjólaður vegurinn upp að Baldvinsskála (kallaður Fúkki sem skýrir sig sjálft fyrir þá sem hafa komið þangað). Elli mátti stinga mig af á þessum kafla (hann er búinn að vera að æfa stíft fyrir Birkebeiner hjólreiðakeppnina sem haldin er í Noregi upp úr miðjum ágúst) og var kominn í Fúkka um klukkustund á undan mér (að eigin sögn, hehe). Það eina sem ég sá eftir var að hafa ekki tekið með mér annan brúsa af vatni því ekki veitti af.

Næsti hluti eru fannirnar og þar gátum við hjólað eins langt og við komumst og reitt síðan hjólin. Þessi hluti var auðveldari en ég átti von á því minni snjór var heldur en áður (þetta er fjórða ferðin mín á Hálsinn) og þess vegna var brattinn upp í móti með betri spyrnu heldur en hefði verið í snjónum. Þá var hjólunum skellt á axlirnar.

Niður Bröttufönn skíðaði maður á strigaskónum með hjólið við hliðina á sér, ekkert mál. Þá komu keðjurnar við Heljarkamb, þar sem maður var svona við það að detta. Morinsheiðin gekk ágætlega, en þar er að vísu nokkuð stórgrýtt og stundum auðveldara að fara út af leiðinni heldur en að vera á henni.

Restina af leiðinni þ.e. brattann niður að Kattatungum og alla leið niður í Heiðmörk segja sumir mér að þeir hafi hjólað alla (Arnar, sneið til þín), en þá mega þeir heita góðir. Ég alla vega vildi komast lifandi frá þessu og láta skynsemina ráða, enda hefði ég sjálfsagt drepið mig 100 sinnum ef ég hefði reynt að leika það eftir.

Í það heila var þetta athyglisverður ferðamáti á fjöll og aldrei að vita hvar maður gerir þetta næst. Spurning um að fara að æfa sig í Esjunni!

Grillveisla okkar starfsmannanna, varðeldurinn og söngveislan í skálanum í Básum varð heldur ekki til að skemma fyrir þessari stórskemmtilegu ferð.