Heimshornablogg!

Hvað sem þú gerir - ekki gera EKKI neitt!

sunnudagur, júlí 17, 2005

Reykjavík - Keflavík - Grindavík

Fyrsti og annar leggur siglingarinnar til Færeyja var sigldur nú um helgina. Á föstudaginn var siglt frá Reykjavík til Keflavíkur sem hluti af keppninni um Knarrarbikarinn.

Keppnin var ræst kl. 16:05 og áttum við að sigla fyrir Akureyjarbauju og Sexbauju og síðan inn rakleiðis inn í Grófina í Keflavík. Ákváðum að sleppa því að nota belgseglið að Akureyjarbauju þar sem við vorum undirmannaðir (bara tveir, allir að vesenast í fríi), síðan var siglt nánast á einum beitilegg alla leið inn í Grófina. Ekki þekki ég úrslitin, en tel líklegt að við höfum verið í næstneðsta sæti, a.m.k. fannst mér að Arían hefði átt að vera mikið lengra á undan okkur miðað við forgjöf.

Á þriðudagsmorgun sigldum við svo til Grindavíkur. Vindur var suðaustlægur og vorum við á belg að Gerðum og rákumst á nokkrar hnýsur þar, svo á beitingu fyrir vestan og sunnan nesið í 16-20 hnúta vind um borð. Veður var þurrt þar til við komum fyrir Garðskagavita, en þá tóku við skúrir sem slotaði ekki fyrr en við komum í Grindavík. Vorum við þá orðnir nokkuð blautir. Annars var þetta fín sigling og ágætis æfing í úthaldi fyrir áframhaldandi ferð til Færeyja.