Heimshornablogg!

Hvað sem þú gerir - ekki gera EKKI neitt!

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Sigling til Færeyja

Að morgni föstudagins 22. júlí kl. 10:00 var lagt af stað frá Grindavík til Færeyja. Í áhöfn eru fimm manns. Veður er eindæma gott í landi en spáð breytilegri hægri átt næstu tvo daga, en síðan norðlægum áttum á suðausturmiðum næstu tvo dagana á eftir. Við megum því eiga von á að þurfa að sigla eitthvað á mótór til að byrja með, en eigum birgðir fyrir ca. hálfri siglingunni til Færeyja. Við fáum þó ágætis vind utan Grindavíkur og tökum upp segl. Vindur er suðaustlægur svo að það stefnir í heilmikið kruss og hraðinn er innan við 5 sjómílur á klukkustund (hnútar). Við ákveðum því að setja mótórinn í gang og tökum stefnu á Faxasker rétt norðan Vestmannaeyja. Fljótlega siglum við inn í svartaþoku og vindurinn dettur niður í nánast ekki neitt. Um klukkan 22:00 um kvöldið erum við enn í svartaþoku og tökum þá ákvörðun fyrir öryggissakir að fara inn til til Eyja og bæta á olíuna. Við komum að höfninni rétt fyrir kl. 23:00 og siglingin til Vestmannaeyja tekur því 13 klukkustundir.

Er við siglum að höfninni komumst við að því að gírinn okkar er pikkfastur og kemst ekki í hlutlausan gír, hvað þá í bakkgír. Við rennum því rólega upp að dekkjakanti á hafnagarðinum. Í Vestmannaeyjum fáum við alla þá hjálp sem við þurfum og meiri en við þorðum að vona. Kíkt er á gírinn strax sama kvöld og um morguninn er kallaður út viðgerðamaður. Ekki er útlitið gott, en að lokum er niðurstaðan sú að hægt sé að keyra gírinn í áframgír án þess að hann skemmi meira út frá sér. Veðurútlitið hefur ekki breyst og breytilegar hægar áttir sjást aðeins í kortunum. Seinni part dags er vindur orðinn þó nokkur við flugturninn í Eyjum, þangað sem við förum að skoða veðurkortin.

Klukkan 18:00 á laugardeginum halda fjórir áhafnarmeðlimir ferðinni áfram til Færeyja, ásamt mér þeir Erlingur, Eysteinn og Haraldur Örn. Haldið er í áttina til Dyrhóleyjar. Vindur er enn suðaustlægur en góður og verðum við að krussa, en hraðinn er ágætur, rúmar 6 sjómílur. Eftir kvöldverð að hátíðarbrag kokkaðan af Ella, tökum við Haraldur við næturvaktinni. Um þrjúleytið um nóttina erum við að nálgast vitann við Dyrhóley, en vindur er orðinn bæði lítill og óreglulegur þannig að við fellum segl og setjum á mótór og siglum í morgunskímunni á rennisléttum sjónum framhjá Dyrhóley og Reynisdröngum. Klukkan 5:00 um morguninn taka Erlingur og Eysteinn við vaktinni. Upp úr klukkan 8:00 hreppa þeir góðan hliðarvind, suðlægan, rétt aftan við þvert og belgurinn er dreginn upp. Í sextán tíma er belgurinn uppi og hraðinn þetta 7-8 hnútar og siglingin gengur dúndurvel. Um kvöldmatartímann er ég orðinn nokkuð svangur, festi belgskautin og freistast til að fara niður í mat með félögunum. Á meðan nær skútan sjálf mestum hraða sem náðist í ferðinni eða 8,12 sjómílum!

Ferðin áfram næsta dag og næstu nótt gengur annars bara ljómandi vel, við getum siglt bæði á stórsegli og genúu að mestu. Sjólag er almennt gott, mesta ölduhæð 2-3 metrar og vindur um borð almennt þetta 17-23 hnútar. Við höfðum gert samkomulag um að við myndum rífa niður segl og nota mótor ef hraði færi niður fyrir 3 hnúta, enda gerði ferðaáætlunin fyrir 5 hnúta meðalhraða, en annars þurfum við lítið á mótórnum að halda á þessum tíma. Þriðju nóttina (frá Vestmannaeyjum) lendum við í 28 hnúta vindi og því er siglt á genúu um tíma.

Upp úr hádegi á fjórða degi sjáum við til lands í Færeyjum og fyrsta myndin er tekin af Mykinesi rétt fyrir klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Við erum að sjá fyrstu Færeyingana þarna, skipstjóri á veiðibát vinkar vinalega til okkar og býður okkur velkomna. Við siglum suður með Vogey og tökum stefnuna suður fyrir Koltinn og á sundið milli Hesteyjar og Sandeyjar. Skömmu áður en við komum að þessum eyjum fellur allt í dúnalogn og við sem vorum rétt nýbúnir að hífa upp belginn verðum að draga hann niður hundslappan. Þá er sett á mótór um stund, en síðan fáum við vind aftur og tökum aftur upp stórsegl og genúu. Þegar við komum að sundinu, lítur sjórinn út eins og væri að sjóða í honum og hraðinn samkvæmt GPS dettur niður í 1-2 hnúta. Þá er sett á mótór með seglum og reynt að sigla í vari við Hestey og eykst hraðinn eitthvað við það. Þó finnst okkur þetta ganga hægt, enda orðnir óþreyjufullir að sjá til Þórshafnar. En um leið og við komum fyrir austurenda Hesteyjar gengur allt betur fyrir sig. Þrátt fyrir sæmilegan vind siglum við á mótor alla leið inn til Þórshafnar, því við viljum ekki tefja för okkar með beitingu inn til Þórshafnar í sundinu milli Straumeyjar og Kolseyjar.

Við renndum hljóðlega að bryggjukanti utarlega á höfninni í Þórshöfn og stigum alsælir í land eftur þetta afrek okkar.

Við vorum komnir til Þórshafnar klukkan 23:00 að staðartíma og höfðum þá verið 76 tíma á leiðinni frá Vestmannaeyjum eða 89 tíma alls frá Grindavík. Meðalhraðinn var því um 5,6 hnútar. Við hefðum því verið um 100 tíma frá Reykjavík.