Heimshornablogg!

Hvað sem þú gerir - ekki gera EKKI neitt!

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Snæfellsnes

Merkilegt nokk, ég hafði aldrei komið á sunnanvert Snæfellsnes! Alltaf gott að eiga eitthvað skemmtilegt inni. Skruppum á nesið á mánudaginn og gistum á Hótel Eddu á Hellisandi, sem er alveg fyrirmyndar hótel. Daginn eftir byrjuðum við á því að leika okkur í fjörunni á Skarðsvík og kíktum síðan á Önverðarnes. Varð að kíkja þangað eftir að hafa siglt rétt fyrir nesið fyrir tveimur árum. Á þessum slóðum er mikið af írskum minjum, brunnar og rústir af kirkju svo eitthvað sé nefnt og seinni tíma minjar um útróðra frá þessum stað.

Þessu næst var haldið á Djúpalónssand þar sem má sjá brak eftir enska togarann Epine sem fórst þarna 1948, eins og fleiri skip. Ekki gafst tími til að fara í Dritvík, en þangað er um klukkustundargangur. Meðan róið var til fiskar frá þeim stað sóttu menn vatn í Djúpalón. Mjög fallegt er á Djúpalónssandi, sem þó er að mestu sjóbarin möl, þar gátum við legið í sólbaði og fylgst með hjálparlausum marglyttunum berast að landi.
Þarna er líka að finna kraftasteinana sem notaður voru til að meta hvort menn væru bærir um að vera hásetar á veiðum frá Dritvík, amlóði (23 kg), hálfdrættingur (56 kg), hálfsterkur (100 kg) og fullsterkur (154 kg). Áttu menn að lyfta steinunum upp á klöpp í mjaðmahæð.

Á Hellnum er einstök náttúrufegurð. Neðan kaffistofunnar er falleg vík umvafin klöppum og þar við hliðina á nokkurs konar berghellir sem sjór nær inn í annars staðar frá. Í berghellinum sátu riturnar á hreiðrum sínum og virtust firra sig sig lítt yfir mannfólkinu sem kom til að kíkja. Þarna mátti sjá litla hnoðraða unga teygja sig eftir æti sem borið var að þeim.
Ofan af palli kaffistofunnar er fallegt útsýni. Ekki spillti náttúrunni að undurfögur dönsk snót klæddi sig úr hverri spjör í fjöruborðinu og skellti sér út í víkina. Ekki er hægt að lofa slíkum viðburði við heimsókn þangað en ég get hiklaust mælt með sjávarréttasúpunni!

Spölkorn fyrir ofan er lind sem Guðmundur Góði mun hafa vígt (að mig minnir árið 1260) og stendur þar líkneski af Maríu Mey frá 1989. Með því að lauga sig og signa úr lindarvatninu er sagt að menn muni losna við alla sjúkdóma.

Þá var ferðinni haldið til Arnarstapa, en þar er höfn. Eins gott að kynna sér aðstæður ef maður á eftir að lóna þarna í framtíðinni. Mikið fuglalíf er í klettunum þarna og ágætis útsýnispallur sem reistur hefur verið.

Á heimleiðinni stoppuðum við hjá Gerðubergi á Mýrum þar sem standa mjög fallegir stuðlabergsklettar í langri röð. Að sjálfsögðu var mynvélin ekki með í þessari stórkostlegu ferð, enda bara betra að mæta á svæðið til að upplifa þessa eindæma náttúrufegurð og nánd við dularfullan jökulinn.